Gamlar Myndir


Bónstöðin er opin milli 9:00 - 17:30 virka daga
Pantið tíma í síma: 568-0230
Um mengun í bílalökkum

 

JobbiÞó mengun hér á norðurhveli jarðar sé ekki mikil þá eykst hún hröðum skrefum. Við sjáum mikinn mun nú og frá bónstöðin opnaði árið 1982. Þá sást mjög sjaldan mengun í lökkum. Þ.a.l. er nú orðið algengara að við séum að massa bíla. En lakkmengun er af ýmsum toga.

Rigningarblettir.

Það sem gerir okkur oft erfitt fyrir er súrt regn sem myndar rigningarbletti og er algengasta mengunartjónið sem við fáumst við. Regndropinn situr á lakkinu og þornar þar en eftir situr hringlaga blettur sem festist í lakkinu, sérstaklega á vélarhlífinni, þar sem hitinn frá vélinni gerir það að verkum að regndropinn þornar fyrr en ella. Oft nást þessir blettir ekki úr lakkinu nema með mössun eða póleringu með vélum þar sem lakkið er slípað með örfínum massa, ekki ósvipað og gert var við stofuborðin hér áður fyrr. Blettirnir myndast einnig á rúðunum og verður að massa þá úr með rúðumassa.

 Málningarúði.

Málningarúði fýkur oft langar leiðir þar sem verið er að háþrýstiþvo eða mála hús að utan. Í flestum tilfellum er þessu náð úr lakkinu með ýmsum aðferðum en vélmössun er þó oftast það sem verður að grípa til. Ef gripið er til ráðstafana strax eða innan 2 klst. frá því að tjón verður, verður kostnaður við vinnuna minni en ella. Og vert er að minna á að verktaki (tjónvaldur) er ábyrgur fyrir tjóni sem hann veldur á bílum annarra.

 Fugladrit.

Í fugladriti er sýra, að vísu mismikil, sem fer oft afar illa með lakkið. Lakkið hleypur upp og verður eins og  tyggigúmmí. Þegar það þornar aftur verður eftir upphleyptur blettur sem nær aldrei aftur fyrri herslu. Það fyrsta sem ber að gera er að skola þessu af meðan það er enn rakt. Ef það tekst ekki, eru til efni sem leysa dritið upp. Ekki má nudda dritið af þurrt, því þá rispast lakkið.

 Trákvoða.

Eins er um laufblöðin og fræin sem falla af trjánum. Trjákvoðan eða harpixið í þeim gerir það sama og fuglaskíturinn en lakkið virðist þó ná meiri herslu þegar það þornar en eftir fugladritið. Hér gildir að skola laufblöð af lakkinu eins fljótt og hægt er. Ef þetta nær að harðna eru til efni sem ná þessu af. Best er að forðast að leggja einkabílnum undir trjám á sumrin, hylja hann eða hafa hann alltaf stífbónaðan og skola reglulega.

 Sólarljós.

Þó við fáum ekki mjög marga sólardaga hér á Íslandi er sólskinið samt vægðarlaust vegna þess hve loftið er hreint. Útfjólubláir geislar baka lakkið og veldur uppgufun ákveðinna litaþátta í því. Þannig upplitast lakkið og það mattast. Einnig þurrkar sólskinið regn af lakkinu og flýtir þannig fyrir að rigningarblettir myndast. Lakkmössun er ágæt leið til að leysa þetta vandamál. Síðan er það til að sólin hiti lakkið svo mikið að það vilji springa.

 Flugur.

Á miklum skordýraárum verða skordýr að plágu, ekki bara fyrir mannfólkið heldur líka fyrir bílana. Þau safnast framan á þá; húddið, svuntuna, speglana, og framrúðuna. Í skordýraskel er svokallað kítin, afar hart efni sem lemst gegn um bónið, inn í lakkið og bítur sig þannig fast í það. Eftir því sem menn keyra hraðar lemst þetta fastar inn. Þetta getur orðið svo slæm skæðadrífa að illa sést út um framrúðuna og loftinntök stíflast og valda þannig gangtruflunum eða hitahækkun á vél. Þessvegna er mikilvægt að fjarlægja þetta með viðeigandi efnum sem fyrst. Síðan þarf að setja bón á lakkið því leysiefnin eru sterk og skilja lakkið eftir bert.

 Vegatjara.

 Þegar ekið er á svæðum þar sem verið er að malbika eys bíllinn upp á sig tjöru. Þetta getur orðið sérlega slæmt þar sem verið er að tjörubera undir malbikið. Einnig lætur gamalt malbik frá sér nokkra tjöru sem þannig festist í lakkinu á löngum tíma. Tjaran bítur sig í gegn um mörg bón, sérstaklega þegar hún er ný og getur þannig valdið dökkum blettum í ljósum lökkum. Þetta næst úr með tjöruleysi en leysirinn skilur lakkið eftir bert svo það þarf að bóna vel á eftir, oft með massabóni.

 Steypa.

Steypan er eitt það versta sem við lendum í og veldur varanlegu tjóni á lakkinu ef hún er ekki skoluð strax af á meðan hún er enn blaut. Það þarf svo að vinna lakkið til, t.d. með bónun eða með mössum í verri tilfellum. Stundum er þetta þó of seint og þá verður hreinlega að sprauta bílinn.

 Niðurlag.

Sé bíllinn með góða bónhúð má draga stórlega úr þessum tjónum. Hún ver bílinn, ekki aðeins gegn regni og óhreinindum heldur einnig gegn mengun af ýmsu tagi. Bónið bílinn oft, á 1-2 mánuða fresti og byggið upp lakkvörn. Það skilar sér síðar í endursölu bílsins.

 Jósef Kristjánsson.