Gamlar Myndir


Bónstöðin er opin milli 9:00 - 17:30 virka daga
Pantið tíma í síma: 568-0230
Um gæði vatnslakka og umhirðu þeirra

2. september 2002

 

 Jobbi

Vatnslökkin.
Fyrir rúmum tíu árum var sett bann í Evrópu á innflutning bifreiða með olíuakríl lökkum og krafist var af bifreiðaframleiðendum að nota umhverfisvænni lökk eða vatnsþynnanleg lökk á bifreiðar sem fluttar voru inn. Síðan þessi eiturefni voru tekin úr lökkunum hafa menn glímt við margháttuð vandamál. Þessi lökk reynast einfaldlega of gljúp og loka yfirborðinu ekki nægilega vel. Umhirða bílalakka í dag er því með öðrum hætti en áður var. Dæmi eru um nokkurra mánuða bíla sem eru farnir að láta verulega á sjá, lakkið orðið afar matt og oft reynist vera hvít slikja á yfirborðinu. Í flestum tilfellum er orsökin þvottakústar þvottaplananna eða sjálfvirku þvottastöðvarnar.
 
Bökunartíminn.
Framleiðsla bifreiða er sífellt að verða hraðari og framleiðendur hafa í æ ríkari mæli reynt að stytta bökunartíma lakkana. Til þess að þetta sé hægt verður að auka þurrefnisinnihaldið. Því fylgir sú hætta að hárfínar rispur myndist á yfirborði lakksins, svokallaðar míkrórispur, og er því mjög nauðsynlegt að umhirða þess sé rétt. Við höfum oft tekið eftir því að tuskan sem við bónum með verður lituð af lakkinu. Þetta eru merki þess að bökun lakksins er of lítil. Okkar ráð er að polera lakkið vel því núningurinn myndar hitann sem upphaflega vantaði uppá og herðir því lakkið. Nýjasta afurð framleiðenda er lakk sem kallast Auto Acril RM+ og virðist það bæta töluvert hersluna í yfirborðinu.
 
Umhirðan.
Með réttri umhirðu geta vatnslökkin verið endingarbetri en gömlu lökkin. Til að svo sé, þarf að gæta vel að eftirfarandi.
  • Þrífið bílinn oft með leysiefnalitlum efnum. Í hreinsibónum eru mikið af leysiefnum sem matta lakkið.
  • Látið tjöruhreinsinn ekki liggja lengi á bílnum og alls ekki að nudda lakkið með honum, heldur skolið fljótt af með vatni. Endurtakið frekar tjöruhreinsunina á þeim blettum sem erfiðastir eru.
  • Notið helst ekki sjálfvirku bílaþvottastöðvarnar heldur þvoið sjálf með svampi og sápu eða notið bónstöðvar þar sem þekking er til staðar.

Bílakaup eru næst mesta fjárfesting heimilanna og það er óþarfi að láta bílinn tapa verðgildi sínu of fljótt. Mikilvægt er fyrir bifreiðaeigendur að gera sér grein fyrir því að ekki er nægjanlegt að bóna bílinn einungis fyrstu mánuðina eða yfir sumartímann, heldur er nauðsynlegt að halda bónhúðinni við, allt árið um kring.
 
Töfraefnin.
Á seinustu árum hafa komið fram ýmis ?Töfraefni? í lakkvörnum sem sölumenn þeirra fullyrða að endast í marga mánuði eða jafnvel nokkur ár. Einn reyndi að selja mér efni sem hann sagði endast líftíma bifreiðarinnar. Skrum af þessu tagi eru þessum sölumönnum til skammar en verst er þó að fjöldi fólks trúir þessu. Þessi efni eru flest bandarísk, framleidd fyrir allt önnur lökk en við notum og menn trúa í blindni öllu sem misheiðarlegir sölumenn þessara framleiðanda segja. Reyndin er sú að þessi efni hafa  alls ekki staðið undir væntingum og hefur nú dregið mikið úr notkun þeirra. Við höfum prófað flest efnin en ekkert þeirra hefur staðið undir þeim væntingum eða fullyrðingum sem sölumenn þeirra hafa lofað. Nú er svo komið að við erum afar vandlátir á hvaða efni við tökum til prófunar.
 
Lakkskemmdir.
Tjara sem situr á bifreiðinni litar lakkið samtímis því að hún skemmir herslu þess. Litur bifreiðarinnar hefur líka mikið að segja. Sumir hreinir litir (ekki sanseraðir litir) eru viðkvæmari fyrir skemmdum vegna þess að í mörgum tilfellum er þurrefnainnihald þess meira. Ef Míkrórispur eru komnar í lakkið er ráðlegt að massa eða pólera lakkið með fínum massa fyrir gamalt lakk en látið kunnáttumann um það, því auðvelt er að skemma meira með  röngum efnum eða rangri meðhöndlun.
 
Niðurlag.
Ástæðan fyrir þessum skrifum er að á þessa bónstöð koma mjög oft nýlegar bifreiðar með afar illa farin eða stórskemmd lökk sem ekki er hægt að bóna upp, heldur þarf að massa eða pólera með ærnum tilkostnaði. Slíkum tjónum er auðveldlega hægt að komast hjá og spara þá fjármuni sem aðgerðum þessum fylgja. Allt og sumt sem þarf er að hugsa vel um bifreiðina sína. Það skilar sér í endursölu. Nóg er nú samt. 
  

Jósef Kristjánsson.